Á annað hundrað keppendur skráðir til leiks

Íslandsmótið í uppgjafarglímu (brasilísku jiu-jitsu) verður haldið sunnudaginn 23. nóvember í húsnæði Ármenninga, Laugardal. Mótið hefst klukan 10:30 og mun standa fram eftir degi. Keppt verður í átta þyngdarflokkum karla og þremur þyngdarflokkum kvenna. Að þeim loknum hefst keppni í opnum flokkum karla og kvenna þar sem öflugustu keppendurnir úr hverjum þyngdarflokki takast á, þvert á stærðarmun.

Fjöldamet slegið

Enn eitt árið í röð hefur fjöldamet skráninga verið slegið og hafa nú á annað hundrað manns boðað þátttöku sína á mótinu. Sérstaka athygli vekur rúm tvöföldun í fjölda kvenna, með á þriðja tug skráðar. Hefur þyngdarflokkum kvenna verið fjölgað um einn í því ljósi.

Líttu við í Laugardalnum

Uppgjafarglíma er ein örast vaxandi íþróttagrein landsins og hafa íslenskir keppendur verið sigursælir á stórum alþjóðlegum mótum. Við hvetjum alla áhugasama að líta við í Laugardalnum á sunnudaginn og sjá fílhrausta sveina og meyjar leika listir sínar.