Mjölnismenn með þrenn gull á Evrópumeistaramótinu

Þau Sigrún Helga Lund og Pétur Jónasson, bæði úr Mjölni, urðu í dag Evrópumeistarar í uppgjafarglímu (NO-GI) í flokki keppenda með blátt belti á Opna evrópska meistaramótinu (European Open NO GI IBJJF Championship). Þau fylgdu þannig eftir góðu gengi sínu í gær á Opna Rómarmótinu í BJJ þar sem þau unnu bæði einnig til gullverðlauna. Sigrún sigraði reyndar tvöfalt í dag því hún vann einnig opinn flokk kvenna með blátt belti en Pétur datt út í opnum flokki karla á minnsta mögulega stigamun. Pétur sigraði hins vegar alla andstæðinga sína í þyngdarflokkum með uppgjafartaki (submission). Fleiri íslenskir keppendur tóku þátt í dag en komust ekki á verðlaunapall. Best stóð Ómar Yamak sig en hann sigraði tvær glímur en féll úr keppni í átta manna úrslitum eftir naumt tap á stigum. Það má því með sanni segja að Íslendingarnir hafi staðið sig vel um helgina en alls koma þeir heim með fimm gullverðlaun, eitt silfur og eitt brons eftir keppnir helgarinnar þar sem keppendur Mjölnis unnu tvenn gullverðlaun, silfur og brons á Opna Rómarmótinu í gær eins og þegar hefur komið fram. Þeir Gunnar Nelson, John Kavanagh og Þráinn Kolbeinsson fylgdu íslensku keppendunum á mótin en þeir eru allir þjálfarar í Mjölni.