Anna Soffía með tvenn gullverðlaun á Grapplers Quest

Anna Soffía með gull í AmsterdamAnna Soffía Víkingsdóttir úr Mjölni gerði sér lítið fyrir og vann til tveggja gullverðlauna á Grapplers Quest European Championship mótinu í BJJ sem haldið var í Amsterdam á laugardaginn en hún keppti í 63kg flokki og opnum flokki blábeltinga í Gi. Skemmst er frá því að segja að Anna Soffia vann gullverðlaun i báðum flokkum en hún sigraði alla andstæðinga sína með uppgjafartökum nema í úrslitum opna flokksins þar sem hún sigraði örugglega á stigum. Anna Soffa var að vonum kát eftir sigurinn. “Þetta var mjög skemmtilegur dagur og gott að fá sjálfstraustið aftur sem keppandi eftir meiðsli,” sagði hún, en eins og flestir vita er hún fremst íslenskra kvenna í judo og er nú að stíga uppúr erfiðum meiðslum. “Stressið gerði vart við sig til að byrja með, en um leið og ég komst í gírinn þá var ekki aftur snúið, og ekki leiðinlegt að fá þetta fallega belti. Æfingarnar í Mjölni komu mér í gegnum þetta mót, enda frábær andi þar sem fólk er saman komið til þess að njóta og hafa gaman af því sem það er að gera, og ekki má gleyma öllum þessum frábæru þjálfurum,” sagði hún að lokum. Við óskum Önnu Soffíu innilega til hamingju með frábæran árangur á mótinu.