Glímukona & glímumaður ársins 2017

Við upphaf nýs árs er gott að líta um öxl á farinn veg ásamt því að setja sér markmið fyrir komandi ár. Seta núverandi stjórnar er einungis hálfnuð en margt hefur samt á daga hennar drifið og verður hér stiklað á stóru.

Ný stjórn sambandsins var kosin á aðalfundi þann 27. júlí síðastliðinn. Þar komu ný inn í stjórnina Guðrún Björk Jónsdóttir sem ritari, Bjarni Kristjánsson meðstjórnandi og Dóra Haraldsdóttir í starf gjaldkera. Áfram sátu Halldór Logi Valsson sem formaður og Eiður Sigurðsson í nýju embætti sem varaformaður.

Við fengum til okkar góða gesti á árinu en þau Patrick Welsh og Erin Herle komu bæði í heimsókn og deildu með okkur vitneskju sinni og fangbrögðum. Sú síðarnefnda hélt meðal annars námskeið einungis ætlað konum en þar fór þáttakan fram úr væntingum og þótti virkilega skemmtilegt námskeið. Einnig hélt BJÍ dómaranámskeið á árinu en það er markmið sambandsins að byggja upp góðan hóp dómara á Íslandi.

Í september var Íslandsmeistarmót barna og unglinga haldið í sjöunda sinn. Mótið fór fram í húsakynnum Sleipnis í Reykjanesbæ en sex félög sendu þangað um 70 keppendur til leiks. Logi Geirsson, Mikael Sveinsson, Áslaug María Þórsdóttir og Valdimar Torfason, öll frá Mjölni, stóðu uppi sem sigurvegarar opnu flokkanna en mikið var af efnilegu glímufólki sem verður spennandi að fylgjast áfram með í framtíðinni.

Íslandsmeistaramót fullorðinna var haldið í nóvember í tíunda skiptið en það fór fram í húsakynnum Mjölnis. Mótið þótti takast vel til og skipulag með því besta sem hefur verið en nýtt kerfi sem auðveldara starfsfólki mótsins að halda utan um alla sína vinnu var prufukeyrt á mótinu. Það tókst svona líka vel til og er stefnt á að þróa notkun þess enn frekar á komandi mótum. Einnig var breytt fyrirkomulag á keppninni en sérstaklega var keppt í flokki hvítra belta sem ekki hefur verið gert áður. Á síðasta aðalfundi félagsins kom sú ósk fram að aðgreina byrjendur frá lengra komnum á  Íslandsmeistaramótinu til þess að allir fái sanngjarnari glímur. Með þessu viljum við einnig hvetja nýliða í íþróttinni til að byrja að keppa fyrr. Um 80 keppendur voru skráðir til leiks frá sex félögum og var mikið um skemmtilegar og líflegar glímur. Sigurvegarar mótsins voru þau Sighvatur Helgason úr Mjölni og Karlotta Baldvinsdóttir úr VBC.

Í fyrra veitt BJÍ í fyrsta skipti verðlaun til glímukonu og glímumanns ársins. Þeirri hefð er áfram viðhaldið og var biðlað til tveggja fulltrúa hvers aðildarfélags að koma með tilnefningu til verðlaunanna. Glímukona og -maður ársins 2017 eru þau Inga Birna Ársælsdóttir úr Mjölni og Eiður Sigurðsson úr RVK MMA.

Inga Birna hefur sinnt glímunni af kappi á liðnu ári og verið dugleg að keppa, bæði hér heima sem og erlendis og staðið sig með príði. Hún lenti í öðru sæti í Nogi Expert division á NAGA sem fram fór í Frakklandi í nóvember. Þá vann hún Grettismót Mjölnis og nældi sér í tvöfalt brons á Nordic Open í mars sem og brons í Copenhagen Open í september. Hún var svo í öðru sæti í sínum flokki á Íslandsmeistaramótinu.

Eiður var einnig duglegur að keppa á þessu ári og sópa að sér verðlaunum. Hann nældi sér í brons á British Nationals bæði í gi og nogi, vann brons einnig á NAGA á Írlandi í nogi og varð í öðru sæti í gi. Þá keppti hann einnig á NAGA í Þýskalandi þar sem hann lenti í 4. sæti auk þess að fara á bæði Nordic Open Grappling og Nordic BJJ Open. Hérna heima varð hann svo í fyrsta sæti í sínum þyngdarflokki á Grettismóti Mjölnis og í öðru sæti í opna flokknum auk þess að hampa fyrsta sæti í sínum þyngdarflokki á Íslandsmeistaramótinu í nóvember. Þá situr Eiður í stjórn BJÍ og stýrði meðal annars Íslandsmeistaramóti barna og unglinga á haustdögum.

Við óskum þessu frábæra glímufólki innilega til hamingju með sín afrek og vonum að þau haldi áfram á sömu braut ásamt því að blása öðru efnilegu glímufólki í brjóst að ná enn lengra.

BJÍ vill sérstaklega þakka öllu því góða fólki sem hefur komið að starfi sambandsins á árinu sem er að líða. Sá samhugur og samvinna er sambandinu ómetanlegt. Aðildarfélögin eiga öll hrós skilið fyrir sína óeigingjörnu vinnu sem þau leggja í BJJ starfið á Íslandi, bæði í sínum eigin félögum og með því að styðja við starf BJÍ.

Meðal verkefna sem sambandið setur sér á nýju ári er að skoða betur hvernig BJJ getur orðið að viðurkenndri íþrótt á Íslandi, halda áfram að flytja inn glímufólk til að auðga okkar vitneskju, bæta og þróa mótastarfið og leita frekari leiða til að styrkja BJJ á Íslandi.

Gleðilegt nýtt ár