Mjölnir Open næsta laugardag

Mjölnir Open verður haldið í húsakynnum Mjölnis að Seljavegi 2 næsta laugardag, 24. mars, en þetta er í sjöunda skiptið sem Mjölnir stendur að mótinu. Mjölnir Open er án efa sterkasta uppgjafarglímumót (no-gi) landsins og er almennt talið einskonar óopinbert Íslandsmeistaramót í uppgjafarglímu. Á mótinu munu takast á flestir af sterkustu glímumönnum landsins, m.a. Gunnar Nelson sem er nýkominn heim frá Írlandi eftir frækinn sigur á Úkraínumanninum Alexander Butenko í blönduðum bardagaíþróttum (MMA). Eins og áður segir verður mótið nk. laugardag og hefst kl. 11 en keppt verður á tveimur völlum.

Eftirfarandi þyngdarflokkar eru á mótinu:

Karlar:
-66, -77, -88, -99, +99 og opinn flokkur.

Konur:
-64, +64 og opinn flokkur.

Nánari upplýsingar um mótið, reglur og fleira má finna hér á spjallborði Mjölnis.